Sex fyrirtæki keppa um mótun uppbyggingar- og þróunaráætlunar Keflavíkurflugvallar í alþjóðlegri hönnunarsamkeppni

10.12.2014

Sex alþjóðleg fyrirtæki með mikla reynslu í skipulagsmálum flugvalla hafa verið valin til samkeppni um mótun uppbyggingar- og þróunaráætlunar (Masterplan) fyrir Keflavíkurflugvöll til næstu 25 ára.

masterplan-kynning

Forval var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu í október og urðu eftirtalin fyrirtæki fyrir valinu:

 • INECO Ingenierta Y Economia del Transporte SA á Spáni
  Ramboll A/S í Danmörku
  Naco Netherlands Airport Consultants í Hollandi
  Nordic – Office of Arthitecture í Noregi
  EC Harris LLP í Bretlandi
  Mott MacDonald LTD í Bretlandi
  Nítján fulltrúar frá fyrirtækjunum sex sem valin voru til hönnunarsamkeppni um uppbyggingar- og þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar kynntu sér flugvöllinn og starfsemi hans í síðustu viku.

Fyrirtækin hafa hafa öll unnið sambærilegar áætlanir í löndum Evrópska efnahagssvæðisins og/eða í Norður-Ameríku og hafa á að skipa sérfræðingum með mikla reynslu í skipulagsmálum flugvalla. Tvö þeirra starfa með íslenskum verkfræðiskrifstofum að verkefninu, Ramboll A/S með Mannviti og Mott MacDonald með verfræðistofunni VJI.

Uppbyggingar- og þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar verður framtíðarsýn á landnýtingu, uppbyggingu flugvallarmannavirkja og umhverfisáætlun sem nýtist öllum hlutaðeigandi við ákvarðanatöku um fjárfestingar og skipulagsmál með hagkvæmni og vistvæna þróun að leiðarljósi.

Ferðamannastraumur um Keflavíkurflugvöll hefur aukist mjög undanfarin ár og er gert ráð fyrir að sú þróun haldi áfram. Hugað verður að bættri þjónustu við flugfélög og farþega í samráði við flutningafyrirtæki, ferðaþjónustuaðila og aðra hagsmunaaðila. Hver milljón farþega um alþjóðaflugvöll skapar að jafnaði um 1000 störf sem gefur til kynna efnahagsleg áhrif Keflavíkurflugvallar á nærsamfélagið. Sérstaklega verður fjallað um uppbyggingu þess og leitað eftir þátttöku nágranna flugvallarins við mótun áætlunarinnar.

Þátttakendur í samkeppninni munu skila inn tillögum sínum 12. janúar nk. og verða eitt eða fleiri ofangreindra fyrirtækja valin til þess að vinna fullmótaða áætlun sem liggja skal fyrir í júní á næsta ári.

„Áhuginn sem verkefninu hefur verið sýndur er mjög ánægjulegur. Fyrirtækin búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu og ég er fullviss um að niðurstaðan verður glæsileg fyrir þróun flugvallarins“, segir Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia.

Tengdar fréttir