Leiðarljós og þróunaráætlun


   

13.10.2015. Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar var kynnt á fundi með hagsmunaaðilum 13. október 2015. Þróunaráætlunin, eða svokallað Masterplan, var fyrst kynnt vorið 2015 en síðan hefur víðtækt samráð átt sér stað við hagsmunaaðila sem skilaði sér í þeirri áætlun sem kynnt var. Áætlað er að fyrstu framkvæmdir hefjist í lok árs 2016, en verkið verður unnið í áföngum. Þróunaráætlun tekur á öllu skipulagssvæði Keflavíkurflugvallar og nærumhverfis. Áætlunin er að sama skapi tæki sem hagsmunaaðilar geta nýtt sér til stefnumótunar sinnar og uppbyggingar. Þar eru framtíðaráform Keflavíkurflugvallar kortlögð þannig að vel sé farið með fjármagn flugvallarins í góðu samráði við hagsmunaaðila og nærsamfélag.

Þróunaráætlunin styður við uppbyggingaráform ferðaþjónustunnar, en í nýútkomnum Vegvísi í ferðaþjónustu er gert ráð fyrir að gjaldeyristekjur af greininni í heild muni aukast verulega; fari úr 350 milljörðum árið 2015 í meira en 620 milljarða 2020 og líklega yfir 1.000 milljarða árið 2030. Þetta eru gríðarlega háar fjárhæðir í ljósi þess að áætlaðar heildargjaldeyristekjur þjóðarinnar árið 2015 verða um 1.140 milljarðar króna. Hlutur ferðaþjónustu í útflutningi verður sífellt meiri og var í fyrra rúmlega 28%, en til samanburðar má nefna að grundvallaratvinnugrein Íslendinga í gegnum tíðina, sjávarútvegurinn, var með 23% hlut.

Keflavíkurflugvöllur mun geta tekið á móti allt að 14 milljónum farþega á hverju ári þegar framkvæmdum við Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar verður lokið, sé miðað við sömu dreifingu álags og er nú. Dreifist álag með jafnari hætti yfir sólahringinn en nú er getur flugvöllurinn tekið á móti allt að 25 milljónum farþega. Samkvæmt áætlunum gætu farþegarnir verið 14 milljónir árið 2040, en verði það fyrr mun Keflavíkurflugvöllur engu að síður vera í stakk búinn til að taka á móti umræddum fjölda.

Stækkunin verður framkvæmd í nokkrum áföngum og ræðst stærð þeirra af því hversu mikil og hröð farþegaaukningin verður. Þó er ljóst að fyrsti áfanginn verður stór vegna mikillar uppsafnaðar þarfar til afkastaaukningar.

Ekki er gert ráð fyrir að íslenska ríkið sem eigandi Isavia þurfi að leggja fjármuni til framkvæmdanna, þar sem möguleikar Isavia til fjármögnunar eru góðir og einnig eru til staðar tækifæri sem tengjast aðkomu annarra að Isavia.

Leiðarljós og þróunaráætlun

Leiðarljós og þróunaráætlun

Fréttir